
Hamför Ásrúnar finnsku
Í fyrndinni voru hjón ein á Norðurlandi. Þau áttu son er Þorsteinn hét. Hann var hverjum manni efnilegri og vinsæll mjög. Víkur nú sögunni til Finnlands. Þar var um þær mundir kerling ein allra manna göldróttust og forað í skapi. Hún átti dóttur er Ásrún hét og var hún ólík móður sinni því allt var henni vel gefið. En svo mikið hafði hún numið af fjölkyngi að hún stóð móður sinni síst að baki. Eitt sinn segir kerling við Ásrúnu að á Íslandi sé maður að nafni Þorsteinn og eigi hann að ráða sér bana og skuli hún nú fara til Íslands og ráða hann af dögum. Ásrún tók þessu seinlega en varð þó að hlýða boði móður sinnar, bregður hún sér í flugdrekaham og flýgur til Íslands. Finnur hún bæinn og býður fram vinnu sína um sumarið, kveðst hún heita Ásrún og muni eigi kaupdýr vera. Bóndi ræður hana til sumardvalar og var hún dugleg mjög og líkaði öllum vel við hana. Þorsteini varð heldur hlýtt til Ásrúnar og brátt fékk hún til hans óslökkvandi ást, en leyndi því og gat hún nú ekki unnið á honum. Þegar leið á sumarið fór Ásrún að sofa hvern dag til hádegis og þykir Þorsteini það undarlegt. Grunar hann að næturvökur valdi þessu og heldur og sér vöku til að komast að hinu sanna,en sofnar alltaf er líður á nóttina. Fjórðu nóttina vakir hann og sér þá að hún fer á fætur og ber glas að vitum hvers manns Þorsteinn gætir þess að anda ekki af meðalinu og læðist út á eftir henni. Tekur hún nú upp drekaham mikinn og fer í hann, Þorsteinn nær í sporð hamsins og svífa þau nú með ógnarhraða til Finnlands. Síga þau þar niður að kofa og fer Þorsteinn í leyni, sér hann nú kerlingu eina ljóta og ískyggilega fagnar hún dóttur sinni og spyr hvort hún sé búin að drepa hann Þorstein. Ásrún kveður sér ómögulegt að gera það, varð kerling hin æfasta og hótar að drepa þau bæði nema hún drepi Þorstein, hrökk Ásrún út úr kofanum og kom þá auga á Þorstein, spyr því hann sé þar og segir hann henni sem var og spyr því móðir hennar vilji hann feigan, hún segir orsökina en ekki geti hún drepið hann vegna ástar þeirrar er hún hafi á honum. Þorsteinn segir að þau skuli fara heim aftur, en fyrst drepur hann kerlingu og dysja þau hana. Svifu þau svo heim áður en fólk vaknaði. Daginn eftir segir Þorsteinn foreldrum sínum alla sögu og bað þau leyfa sér að eiga Ásrúnu og var það auðsótt mál. Giftust þau og tóku við búi og þóttu bæði hin mestu valmenni.